Guðrún frá Lundi

„Það hefur mér fundist skrýtnast, að um leið og þeim fækkar, sem þekkja þennan heim, sem ég skrifa um, þá hef ég spurnir af ungu fólki, sem nennir að lesa sögurnar mínar. Það finnst mér eiginlega meira virði, en þótt einhverjir stytti sér stundir við kerlingabókahjal og kaffibolla.“

Svo segir skáldkonan Guðrún frá Lundi í afmælisviðtali við Morgunblaðið árið 1971. Guðrún er þá 84 ára gömul og búin að senda frá sér 27 bindi skáldverka. Fyrsta bók hennar kom út þegar hún var 59 ára. Enginn þekkti höfundinn. Íbúar Sauðárkróks vissu ekki að hægláta feimna konan á Freyjugötunni sæti við skriftir og vinsældir hennar næstu árin komu öllum í opna skjöldu. Hún setti hvert sölu- og útlánsmetið á 6. og 7. áratugnum og var sá íslenski rithöfundur sem var mest lesinn.

Guðrún fæddist þann 3. júní 1887 og ólst upp í hópi ellefu systkina. Á heimilinu var ágætur bókakostur sem vafalítið hefur vegið uppá móti stuttri skólagöngu. Hún byrjaði að skrifa sögur strax um fermingu en brenndi öll skrif sín þegar hún gifti sig. Hún hélt þó eftir nokkrum blöðum úr Dalalífi og sagði í viðtölum að sú saga hefði lifað með sér lengi. Guðrún og maður hennar, Jón Þorfinnsson, stunduðu búskap til 1939 en f luttu þá til Sauðárkróks. Þar gafst Guðrúnu loks tími til að skrifa.

Guðrún og Jón eignuðust þrjú börn. Guðrún lést árið 1975, 88 ára gömul og var jarðsett í Sauðárkrókskirkjugarði.

Marín Guðrún Hrafnsdóttir

Kindle

Nýjar bækur | Spennusögur | Barnabækur | Skáldsögur | Ljóð
karfan mín
Leita