Vilborg Davíðsdóttir

Vilborg Davíðsdóttir fæddist 3. september 1965 á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1984, lagði stund á ensku við Háskóla Íslands veturinn 1985-1986 og lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun árið 1991. Hún lauk BA prófi í þjóðfræði 2005 og MA í sömu grein árið 2011. Meistaraprófsritgerð hennar fjallaði um munnlega sagnahefð og þjóðtrú á Hjaltlandseyjum. Vilborg starfaði sem blaðamaður, dagskrárgerðarmaður og fréttakona á hinum ýmsu fjölmiðlum frá árinu 1985 til ársins 2000 en hefur síðan þá helgað sig ritstörfum.

Fyrsta bók hennar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, árið eftir. Þær gerast um aldamótin 900 og segja frá baráttu ambáttarinnar Korku Þórólfsdóttur fyrir betra lífi og fylgja henni eftir úr ánauð á Íslandi til Heiðabæjar í Danmörku og heim aftur um Suðureyjar og Orkneyjar til frelsis og landnáms á Vestfjörðum. Við Urðarbrunn hlaut verðlaun Íslandsdeildar IBBY 1994 og ári síðar fékk framhaldsbókin, Nornadómur, verðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur. Bækurnar voru endurútgefnar árið 2001 í einni bók undir titlinum Korku saga. Þær hafa notið mikilla vinsælda og verið notaðar við kennslu í grunn- og framhaldsskólum um land allt.

Þriðja bók Vilborgar er Eldfórnin (1997), söguleg skáldsaga sem byggir á atburðum sem urðu í Kirkjubæjarklaustri á 14. öld þegar nunna var brennd þar á báli, og sú fjórða Galdur (2000) sem sömuleiðis byggir á sögulegum atburðum og gerist í Skagafirði á 15. öld þegar Englendingar réðu lögum og lofum á Íslandi.

Árið 2002 kom út þýðing Vilborgar á skáldsögunni The Hiding Place eftir bresku skáldkonuna Trezza Azzopardi, undir titlinum Felustaðurinn.

 

Fimmta skáldsaga hennar, Hrafninn (2005), er byggð á heimildum um lífshætti inúíta og norrænna manna á Grænlandi um miðja 15. öld og örlögum byggðanna sem stofnað var til þar af landnámsfólki frá Íslandi um 1000. Hrafninn var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Næst kom skáldsagan Auður (2009) sem fjallar um uppvaxtarár Auðar Ketilsdóttur djúpúðgu á eynni Tyrvist undan Skotlandsströndum. Hún hlaut mikið lof lesenda og gagnrýnenda og var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Framhald hennar, Vígroði, kom út haustið 2012.

Vilborg hefur skrifað ýmsar greinar í bækur og blöð; meðal annars ,,Konurnar í Kirkjubæ og veruleiki klausturlífsins“ í bókinni Af klaustrum og kennimönnum í Skaftafellsþingi (1999) og ,,Elves on the Move: Midwinter Mumming and House-Visiting Traditions in Iceland“ í bókinni Masks and Mumming in the Nordic Area (2007).

Hún hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Íslands fyrir ritstörf árið 1994 og viðurkenningu úr Bókasafnssjóði höfunda árið 2003 og tók þátt í Bókmenntahátíðinni í Reykjavík árið 2005.

Við Urðarbrunn og Nornadómur komu út í færeyskri þýðingu árin 2003 og 2004 og skáldsögurnar Eldfórnin (Das Feueropfer), Galdur (Der Liebeszauber) og Hrafninn (Die Winterfrau) hafa komið út á þýsku hjá Bertelsmann btb. Galdur kom út í mars 2012 hjá AmazonCrossing í Bandaríkjunum undir titlinum On the Cold Coasts.


Kindle

Nýjar bækur | Spennusögur | Barnabækur | Skáldsögur | Ljóð
karfan mín
Leita